Margaret Lydecker stofnandi Green Drinks heimsótti Ísland á dögunum og fengum við tækifæri til að hitta hana og kynna henni vefinn og grænu kortin okkar og fleira sem tengist umhverfismálum hér á landi. Það var mjög ánægjulegt að hitta þessa atorkukonu sem fyrir átta árum stofnaði óformlega hreyfingu sem stendur fyrir því að fólk sem áhuga hefur á að stuðla að umhverfisvænna samfélagi hittist mánaðarlega yfir „grænum drykkjum“ (lífrænum, fair trade o.s.fr.) og fái tækifæri til að kynnast og jafnvel stofna til samvinnu sem getur kynt undir því að þau vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir fái úrlausn.

Nú árið 2009 eru Green Drinks samfélög starfandi út um allan heim. Í vetur var stefnt til „grænnar samdrykkju“ í fyrsta sinn á Íslandi, þá í Norræna húsinu að frumkvæði Charlotte Ólafar Jónsdóttur Ferrier og GAIA og var hluti af lokaveislu Grænna daga GAIA - félags meisaranema í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ. Sjá frétt um lokaveisluna.

Green drinks NYC nýtur mikilla vinsælda í New York en hún laðar að um 800 þátttakendur á mánaðarlega „hittinga“ sem haldnir eru víðs vegar um borgina. Þegar þú heimsækir New York næst er það örugglega heimsóknarinnar virði að komast í teiti hjá Green drinks NYC.

  1. Það er skemmtilegt. Lífrænt. Óformlegt. Vinalegt. Einu sinni í mánuði. Taktu þátt. Vertu með. Opið öllum!
  2. Hittum nýtt fólk. Eignumst vini. Förum á stefnumót. Finnum vinnu. Fáum hugmyndir. Fullt af skemmtilegu fólki!
  3. Myndum sambönd. Vinnum saman. Finnum lausnir. Gerum heiminn betri.

 

Mynd: Margaret Lydecker. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. Grafík: Af vef greendrinksnyc.

Birt:
25. júlí 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Stofnandi Green Drinks heimsækir Ísland“, Náttúran.is: 25. júlí 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/07/25/stofnandi-green-drinks-heimsaekir-island/ [Skoðað:23. júní 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. október 2010

Skilaboð: