Verndarar Jarðar (Earth Keepers) eftir leikstjórann Sylvie van Brabant, hlaut umhverfisverðlaun RIFF nú í kvöld.

Earth Keepers er kraftmikil heimildamynd um umhverfis-aktivista og hið mikilvæga hlutverk þeirra í mótun samfélaga heimsins í dag.  Heimildarmynd Sylvie van Brabant nær að fanga kjarna málsins og undirstrikar þörfina og jafnframt möguleikana sem eru nú þegar fyrir hendi.

Myndin fylgir sögupersónunni Mikael Rioux, á ferðum sínum um heiminn þar sem hann kynnist haldbærum lausnum á þeim umhverfisvandamálum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag. Hugsjónafólk, vísindamenn, aktivistar og umhverfishönnuðir þeir sem Mikael heimsækir á ferðalagi sínu eru magnaðar persónur sem standa að samvinnuverkefnum í sínu nærsamfélagi. Myndin leggur áherslu á að til að mæta þeim  hnattrænu verkefnum sem við þurfum að finna lausnir á þurfum við öll að vinna saman. Þessi hnitmiðaða og vel uppbyggða heimildarmynd Sylvie van Brabant, nær að koma skilaboðum sínum vel til skila með hjálp kraftmikils grafísks myndmáls, kvikmyndatöku og tónlistar sem skilur áhorfandann eftir ákafann og fullan bjartsýni.

Verndarar Jarðar er mynd sem hlúir að von fyrir framtíðina.

í dómnefnd voru:
Guðrún Tryggvadóttir, myndlistarmaður, stofnandi og framkvæmdastjóri Nátturan.is, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK og EDDU-öndvegisseturs við Háskóla Íslands og Lárus Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Earth Keepers verður sýnd á morgun sunnudag, á síðasta degi RIFF, kl. 14:00 í Bíó Paradís en í lok sýningar mun leikstjórinn Sylvie van Brabant svara spurningum áhorfanda.

Ljósmynd: Myndsnið úr Earth Keepers, MIkael Rioux í mótmælagöngu.

Birt:
2. október 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Irma Erlingsdóttir, Lárus Vilhjálmsson „Earth Keepers hlýtur umhverfisverðlaun RIFF“, Náttúran.is: 2. október 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/10/02/earth-keepers-hlytur-umhverfisverdlaun-riff/ [Skoðað:24. júní 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. október 2010

Skilaboð: